Tvö listaverk Ásmundar afhjúpuð í Seljahverfi

Móðir mín í kví kví. Barnið býður konunni duluna til að dansa í.

Móðir mín í kví kví. Barnið býður konunni duluna til að dansa í.

Verk Ásmundar Sveinssonar Fýkur yfir hæðir sýnir móður skýla barni í fangi sér.

Verk Ásmundar Sveinssonar Fýkur yfir hæðir sýnir móður skýla barni í fangi sér.

Listaverkin Móðir mín í kví, kví og Fýkur yfir hæðir eftir Ásmund Sveinsson voru afhjúpuð við Seljatjörn og Seljakirkju 7. nóvember sl. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhjúpaði verkin en þetta eru fyrstu útilistaverkin sem Reykjavíkurborg lætur setja upp í Seljahverfi. Viðburðurinn hófst við Seljatjörn þar sem borgarstjóri afhjúpaði verkið Móðir mín í kví, kví. Þaðan var farið í skrúðgöngu að Seljakirkju þar sem borgarstjóri afhjúpaði verkið Fýkur yfir hæðir.

Á sama tíma var opnuð sýning á listaverkum barna í fjórða bekk Seljaskóla í Seljakirkju. Þema þeirrar sýningar eru þjóðsögur og verk Ásmundar Sveinssonar en sýningin er unnin undir handleiðslu kennara í Seljaskóla og í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur og Bókmenntaborgina. Öll börn í þriðja, fjórða og fimmta bekk Seljaskóla tóku þátt í viðburðinum. Á sýningunni eru sýndar klippimyndir með tilvísun í Krummasögur, myndasögur með tilvísun í þjóðsöguna um Bakkabræður og leirverk sem hafa vísun til álfasagna. Alls tóku 60 börn þátt í verkefninu en þau hafa jafnframt sótt sér efnivið í verk Ásmundar Sveinssonar. Þau fengu leiðsögn í Ásmundarsafni um verk Ásmundar og unnu leirverk í safninu.

Beintengt þjóðsögunni

Ásmundur Sveinsson sótti sér víða efnivið í verk sín. Hann notaði meðal annars íslenskar þjóðsögur sem innblástur. Verkið Móðir mín í kví kví á rót í þjóðsögu um móður sem átti að hafa borið barn sitt út sem ekki var ótítt um fyrr á öldum. Þjóðsagan er á þá leið að einu sinni á málum hafi kona þessi verið að mjólka ær í kvíum með öðrum kvenmanni. Hún þótti nokkuð gilsgjörn og á meðan mjöltunum stóð var hún að fárast um það við hina mjaltakonuna að sig vantaði föt að vera í á vikivakanum eða þeirrar tíðar dansleik sem átti að halda. En í því hún sleppir orðinu heyra þær þessa vísu kveðna undir kvíaveggnum.

Móðir mín í kví, kví,

kvíddu ekki því, því;

ég skal ljá þér duluna mína

að dansa í

og dansa í.

 

Móðir mín í kví kví er beintengt við sjálfa þjóðsöguna en verkið sýnir barnið birtast móður sinni og bjóða henni ,,dulu til að dansa í“.

Fýkur yfir hæðir eru upphafsorð á ljóði Jónasar Hallgrímssonar Móðurást sem fjallar um konu sem fraus í hel í illvirði við að skýla barni sínu Ásmundur mótaði verkið þegar hann bjó og starfaði á Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi á árunum 1931 til 1933. Um þessa fallegu en jafnframt átakanlegu mynd sagði Ásmundur: „Ég gerði hana í Laugarnesi. Það var bylur úti og mér datt í hug að gera mynd af konu sem reynir að vernda barnið sitt. Lítill strákur kom svo til mín síðar, sá skissuna og segir: „Ég veit hvað þessi mynd heitir.“ „Og hvað heitir hún?“ sagði ég?“ „Fýkur yfir hæðir,“ sagði stráksi.“ Fyrsta erindi ljóðs Jónasar hljóðar þannig.

Fýkur yfir hæðir og frostkaldan mel,

í fjallinu dunar, en komið er él,

snjóskýin þjóta svo ótt og ótt;

auganu hverfur um heldimma nótt

vegur á klakanum kalda.

 

 

You may also like...