Kaldur pottur í sundlauginni

Kaldur pottur verður nýjasta viðbótin í Sundlauginni á Seltjarnarnesi. Potturinn er góð viðbót við aðstöðuna í sundlauginni og er væntanlegur innan tíðar en hönnunarvinna hefur farið fram undanfarin misseri. 

Unnið að byggingu kalda pottsins í sundlauginni.

Haukur Geirmundsson sundlaugarstjóri og Margrét Leifsdóttir arkitekt hófu samstarf um útlit og nýtingarmöguleika á köldum potti og að sögn Hauks var fyrirmyndin frá NLFÍ í Hveragerði, svokölluð skiptiböð. Þar er gengið niður í heitt og upp hinu megin niður í kalt. Hér á Seltjarnarnesi var hins vegar tekin ákvörðun um að staðsetja pottinn á milli nuddpottsins og eimbaðsins og því ekki talið nauðsynlegt að hafa heita kerið einnig. Hjá okkur verður það því þannig að þegar farið er úr kalda kerinu getur fólk valið um að fara annað hvort í nuddpottinn eða eimbaðið ef það kýs hita á eftir. Áætlað er að kaldi potturinn verði tilbúinn fyrir sundlaugargesti í júlímánuði en um framkvæmdina hefur Jóhannes Benjamínsson húsasmíðameistari séð ásamt vösku liði frá þjónustumiðstöðinni.

You may also like...